Hvað er Landnámssetrið?

Landnámssetrið er til húsa í tveimur af elstu húsum Borgarness sem tengd eru saman með glæsilegri tengibyggingu sem hönnuð er af Sigríði Sigþórsdóttur, arkitekt. Húsin eru í  neðsta hluta gamla Borgarness, við brúarsporðinn út í Brákarey.

Á aðalhæð og í kjallara gamla pakkhússins (sem þið sjáið á myndinni til hægri) eru sýningar um landnámið og Egilssögu en í risinu er hið margrómaða Söguloft þar sem settar hafa verið upp fjöldi vinsælla leiksýninga. Sjá viðburðadagatal á forsíðunni.

Sýningarnar um landnámið og Egils sögur eru opnar alla daga frá kl.10-21. Farið er í gegnum þær með hljóðleiðsög sem fáanleg er á 14 tungumálum auk sérstakrar barnaleiðsagnar á íslensku.

Í Landnámssetrinu er einnig afar vinsæll veitingastaður þar sem boðið er upp á hollan og góðan mat á viðráðanlegu verði.

Í nýju tengibyggingunni er verslun með alls kyns fallega gjafavöru þar sem áhersla er lögð á íslenska hönnun og erlendar bækur sem tengjast sögu og náttúru.

Saga húsanna
Verslunarhúsið er annað elsta hús Borgarness. Það elsta er talið vera íbúðarhúsið við Brákarbraut 11 sem stendur fyrir ofan Landnámssetur. Verslunarhúsið var byggt á árunum 1877 - 1878 af Akra Jóni sem fyrstur hóf verslun í húsinu. Hann lenti hins vegar í vanskilum við norskan birgja Johann Lange árið 1886 sem tók verslunina upp í skuld.  Johann kom sjálfur ekki til Íslands. Hann hafði frétt af dugmiklum dönskum búðardreng á Borðeyri og fól honum að annast reksturinn í sínu nafni. Sá hét Thor Jensen og varð síðar einn umsvifamesti athafnamaður sem Ísland hefur átt. Thor var þá aðeins rúmlega tvítugur. Thor hafði verið búðardrengur á Borðeyri þar sem hann kynntist eiginkonu sinni Margréti Þorbjörgu. Margrét kom með Thor til Borgarness. Þau stofnuðu heimili í elsta húsinu að Brákarbraut 11 og þar fæddust fyrstu fjögur börn þeirra. Verslunin blómstraði undir stjórn Thors og hann stóð td fyrir að byggja pakkhús við verlsunarhúsið. Pakkhúsið var nýtt sem birgðaskemma fyrir verslunina allt til ársins 1970 þegar sveitarfélagið eignaðist húsið.
Endurbætur og opnun Landnámssetur íslands
Árið 1893 flutti Thor með fjölskyldu sína til Akraness þar sem hann setti á stofn eigin verslun. Verslun var áfram rekin í húsinu næstu 70 árin.  Frá 1970 to 1987 var blikksmiðja Magnúsar Þorvaldssonar í húsinu en eftir það var þar lítil starfsemi  og húsinu lítið sem ekkert haldið við og lá það undir skemmdum.
Árið 1995 tóku svo nokkrir ofurhugar í Borgarnesi sig til og gerðu húsið glæsilega upp og opnuðu þar veitingastaðinn Búðarklett árið 1997.

Pakkhúsið gert upp

Þegar hugmyndin að Landnámssetri var kynnt fyrir sveitarstjórnarmönnum í Borgarnesi hafði Pakkhúsið nýlega verið gert upp með styrk frá Húsafriðunarnefnd. Það var Magnús Skúlason, arkitekt sem leiddi verkið en Stefán Ólafsson og hans menn hjá SÓ húsbyggingum sem unnu það.  Kjallari hússins var ekki manngengur og til þess að hægt væri að koma Egils sýningunni þar fyrir þurfti að dýpka kjallarann um rúmlega 1 meter.  Og það er ekki síst andrúmsloftið í þessum niðurgrafna kjallara sem gefur Egils sýningunni sinn dulúðga og mystiska blæ.

Þessar byggingar eru eitt besta dæmi um gamlar byggingar sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga í Borgarnesi.

Tengibyggingin - Skálinn
Gólfflötur Pakkhússins er aðeins um 50 fm og það rými þurfti allt að nýta fyrir sýningarnar. Fljótlega var því  ljóst að nauðsynlegt yrði að byggja anddyri eða móttökusal og best væri að byggingin tengdi saman gömlu húsin. Bæjarfélagið tók þá að sér að standa straum af þessari byggingu og var Sigríður Sigþórsdóttir fengin til að teikna hana. Taka þurfti tillit til þess að húsin sem byggingin átti að tengja saman eru að hluta friðuð og mátti nýbyggingin ekki raska útliti þeirra. Hönnun Sigríðar hefur hlotið mikið lof og hún fengið viðurkenningar fyrir þessa einstöku hönnun sem ekki aðeins tekur tillit til gömlu húsanna heldur einnig til klettaborgarinnar sem Landnámssetrið stendur við.
Upphafið og bakhjarlarnir

Hugmyndin að Landnámssetri fengu Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir sumarið 2003. Þau kynntu hana fyrir sveitarstjórnarmönnum sem tóku vel í hana og undirbúningur hófst. Gerð var viðskiptaáætlum undir leiðsögn starfsmanna hjá SSV þar sem viðskiptamódelið var ákveðið sem fól í sér að reksturinn skyldi vera undir stjórn Sigríðar og Kjartans.  Þegar sýningarnar voru í undirbúningi í pakkhúsinu við hliðina á veitingahúsinu ákváðu börn fyrrverandi kaupfélagsstjóra Ólafs Sverrissonar og konu hans Önnu Ingadóttur að kaupa veitingahúsið og láta aðlaga það væntanlegum rekstri Landnámsseturs til minningar um foreldra sína. Þau styktu endurbætur á húsinu og uppsetningu sýninganna og hafa alla tíð verið mikilvægir bakhjarlar Landnámsseturs.

Fjöldi fyrirtæka styrktu uppsetningu sýninganna og ber það helst að nefna Sparisjóð Mýrasýslu, VÍS, Samson, Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Orkuveituna, Samskip, Límtré Vírnet,  og Loftorku. Sveitarfélagið Borgarbyggð átti svo afar mikilvægan þátt í að styðja við stofnun Landnámsseturs og veitti því brautargengi fyrstu rekstarárin. Menningarráð Vesturlands hefur einnig stutt vel við menningarstarfið sem verið hefur fastur liður starfseminnar frá upphafi. Öllum þessum aðilium eru færðar innilegar þakkir.

Landnámssetrið var opnað 13. maí 2006